Hyggjast stytta opnunartíma leikskóla og skólavistunar

Allir leikskólar Sveitarfélagsins Árborgar og skólavistanir grunnskólanna munu loka kl. 16:30 á daginn frá og með 1. febrúar næstkomandi.

Þetta kemur fram í upplýsingabréfi sem Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, hefur sent foreldrum í Árborg.

Í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu sveitarfélagsins fyrir árið 2016 kom fram hagræðingarkrafa á öll fagsvið sveitarfélagsins.

Í bréfinu til foreldra segir Þorsteinn að á samstarfsfundum stjórnenda á fræðslusviði og fjármálasviði með bæjarfulltrúum hafi verið ákveðið að leggja meðal annars til að stytta opnunartíma leikskólanna og skólavistana. Það muni stuðla að hagræðingu í rekstri.

Í dag eru flestir leikskólar sveitarfélagsins opnir til 17:15 en Jötunheimar og Hulduheimar til 17:00. Skólavistanir eru ýmist opnar til 17:00 eða 17:15.

Bæjarstjórn mun taka þessa tillögu fyrir við seinni umræða um fjárhagsáætlun 2016 sem fram fer í desember. Fræðslunefnd sveitarfélagsins fjallaði um málið á fundi þann 12. nóvember og þar var lögð áhersla á að foreldrar fái góðan aðlögunartíma fyrir þessa breytingu.

Fyrri greinNý stjórn á Sólvöllum
Næsta greinVilja bætur vegna framkvæmda á Austurveginum