Iðuklettur, eitt helsta kennileiti Stóru-Laxár í Hreppum, hrundi er áin ruddi sig á mánudag. Kletturinn var um þriggja metra hár og stóð austanvert í ánni skammt frá bænum Sólheimum.
Ófáir veiðimenn hafa gegnum árin sett í laxa við Iðuklett og hefur hann prýtt ófáar ljósmyndir, enda svipmikið kennileiti skammt fyrir neðan þar sem Laxárgljúfur opnast.
Nú stendur lítill hnallur upp úr leysingarstraumnum, þar sem kletturinn stóð áður.