Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að veita 15% afslátt af strætófargjöldum barna sem eru með lögheimili í Árborg og nota strætó til að stunda íþróttir utan Árborgar.
Afslátturinn verður bundinn við það að keypt séu farmiðaspjöld og taki fjöldi farmiðaspjalda sem hver og einn iðkandi getur keypt með afslætti mið af fjölda æfinga.
Kvittun fyrir kaupum á farmiðum og staðfesting á að viðkomandi barn stundi íþrótta- eða tómstundastarf sem fellur undir reglur um hvatagreiðslur Árborgar skal framvísað í þjónustuveri Árborgar til að fá afsláttinn.
Kostnaður við afslátt vegna einstaklings á aldrinum 12-18 ára sem æfir í níu mánuði þrisvar í viku á höfuðborgarsvæðinu gæti verið um 16.000 kr. en um 7.000 kr. vegna barns á aldrinum 6-11 ára.