Stefán Karl Stefánsson hjá Sprettu ehf. hefur verið að selja gulrófufræ frá Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi á heldur nýstárlegan hátt.
„Við meðhöndlum fræið ekki með hefðbundnum hætti. Við erum að selja það sem við köllum microgreens eða grænsprettur. Grænsprettur eru svokölluð kímblöð af hverju fræi eða fyrstu tvö blöðin sem koma á hvert fræ. Það er sama hvaða fræ þú ert með, það koma alltaf fyrst tvö blöð á fræið.“
„Við notum bara þessi kímblöð af íslenska rófufræinu. Við klippum þau niður og notum þau til dæmis á rófustöppuna sem svokallað garnish eða skraut. Einnig eru kímblöðin notuð út á salat eða annað rófutengt. Þau hafa líka verið notuð á steikina, súpuna og fleira,“ segir Stefán og bætir því við að íslenskir matreiðslumenn séu farnir að framreiða mat á þennan hátt í síauknu mæli.
Íslensk erfðagreining ætlar að rannsaka rófufræið
Aðspurður hvernig honum hafi dottið í hug að nota rófufræið á þennan hátt segir Stefán að hugmyndin hafi komið frá öðrum matreiðslumanni. „Jói kokkur benti mér á það væri hægt að kaupa þessi fræ í kílóatali. Þetta er svo svakalega gott hráefni. Í þessu formi er rófan superfood eða ofurfæða. Ég ætla að láta Íslenska erfðagreiningu rannsakakímblöðin í rófunni, kraftinn í henni. Ég tel að hún sé fjórum til sjö sinnum næringarríkari en fullvaxin rófa. Það er komið leyfi fyrir að rannsaka þetta, næsta skref er að kýla á það,“ segir Stefán en þess má geta að þessi Jói kokkur heitir fullu nafni Jóhann Hannesson og er sonur Hannesar Jóhannssonar í Stóru-Sandvík sem ræktar rófufræið.
Mikilvægt að þakka mönnum eins og Hannesi
„Ég las um Hannes og allt hans góða starf sem hann hefur gert með íslensku rófuna. Ísland er mjög einangrað samfélag, við erum ekki sjálfbær í mat. Það er alvarlegt mál. Ef það kæmi stríð og allar samgönguleiðir myndu lokast þá erum við ekki sjálfbær í mat. Þess vegna þökkum við mönnum eins og Hannesi fyrir hans starf. Hans starf gerir okkur sjálfbær í rófum. Það er gríðarlega mikilvægt að honum sé þakkað fyrir þetta starf,“ segir Stefán sem segist alltaf vera að reyna að benda fólki á hversu mikilvæg rófan sé, sérstaklega kokkunum.
Sá eini á Íslandi sem ræktar kímblöð
„Ég byrjaði á að rækta rófufræið með þessum hætti um mitt sumar í fyrra. Þá keypti ég fræ og setti í bakka og fór að selja á veitingastaðina. Kokkarnir urðu strax vitlausir í þetta og er þetta alltaf að aukast. Markaðurinn er alltaf að taka meira við sér,“ segir Stefán en til dæmis er hægt að fá rófukímblöð á Fiskmarkaðnum í Reykjavík og Krydd í Hafnarfirði.
„Ég kaupi þrjátíu og sex tegundir af alls konar fræjum héðan og þaðan úr heiminum en það er ekki hægt að gera kím úr þeim öllum. Ég er með mörg íslensk afbrigði og gaman að bjóða upp á eitthvað sem er alíslenskt,“ segir Stefán en þess má geta að hann er sá eini Íslandi sem ræktar íslenskt fræ á þennan hátt.
„Við erum alltaf að reyna að kynna íslenskt hráefni. Við ætlum að gera rófupestó úr þessum fræjum. Það yrði ofboðslega dýrt fyrirbæri – yrði mjög sérstakt og dýrt pestó.“
Sívaxandi vinsældir
Stefán segir að þau hafi aðeins verið að selja á veitingastaði hingað til. „Það eru sirka sjö veitingastaðir í Reykjavík sem bjóða upp á kímblöð af rófufræinu og á þeim eftir að fjölga enn frekar. Á endanum verða þeir örugglega á annan tug. Því miður hafa íslensk heimili ekki ennþá tileinkað sér svona í matargerð.“
„Veitingastaðir á Suðurlandi ættu náttúrulega að hafa samband við okkur. Ef við fáum nægilega marga veitingastaði í viðskipti á Suðurlandi þá förum við að dreifa þangað. Ef fjórir til fimm taka sig saman að versla við okkur þá er það þess virði að keyra þangað. Þeir sem vilja panta hjá okkur geta haft samband í síma 780-1199 eða í gegnum spretta@spretta.is,“ segir Stefán glaður í bragði að lokum.