Í sjálfheldu á Þríhyrningi

Flugbjörgunarsveitin Hellu var kölluð út laust fyrir hádegi í dag til að aðstoða tvær unglingsstúlkur sem voru í sjálfheldu í hlíðum Þríhyrnings.

Stúlkurnar voru einar í gönguferð á fjallið þegar þær sátu skyndilega fastar í klettabelti og hringdu þá eftir aðstoð.

Veður á svæðinu er gott, sól og nánast logn, en stúlkurnar sátu í skugga og er því nokkuð kalt hjá þeim.

UPPFÆRT KL. 13:20: Vel gekk að komast að stúlkunum en björgunarmenn fóru upp í fjallið og komu að þeim ofan frá. Tryggðu þeir öryggi sitt og stúlknanna með línum áður en haldið var niður. Ekkert amaði að stúlkunum þegar að var komið en þær voru að vonum skelkaðar eftir ævintýrið. Í tilkynningu frá Landsbjörgu er stúlkunum hrósað fyrir hárrétt viðbrögð, að halda kyrru fyrir og hringja eftir aðstoð, þar sem sjálfhelda er ekkert gamanmál og getur í raun verið stórhættuleg.

Fyrri greinSinubruni við Alviðru
Næsta greinÁ 158 km/klst hraða á Lyngdalsheiði