Lítið íbúðarhús við Hverahlíð í Hveragerði er ónýtt eftir að eldur kom upp í því síðdegis í dag.
Húsráðandi hafði brugðið sér af bæ en gleymt að slökkva undir eldavélarhellu. Þegar hann sneri aftur voru allar rúður í húsinu svartar af sóti og í stað þess að fara inn hringdi húseigandinn á Neyðarlínuna.
Eldurinn hafði þá étið upp allt súrefnið í húsinu og kafnað aftur þar sem húsið var þétt og enginn gluggi opinn. Loftklæðning í húsinu er ónýt vegna elds og hita og innanstokksmunir sviðnir og sótugir.
Enginn eldur var því í húsinu þegar Slökkvilið Hveragerðis mætti á vettvang laust eftir klukkan 18 en liðsmenn þess reykræstu húsið.