Boðað er til íbúafundar í Leikskálum í Vík í kvöld kl. 20. Þar mun Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, fara yfir atburði síðustu mánaða í Kötlu.
Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir í Fréttablaðinu í dag að lengi hafi staðið til að halda fund sem þennan.
„Hann tengist svo sem ekki endilega þeirri stöðu sem er uppi einmitt núna. Staðan hefur verið töluvert til umfjöllunar upp á síðkastið og þess vegna var ákveðið að gera þetta núna svo fólk fengi að vita aðeins meira en við þessa hefðbundnu tveggja mínútna yfirferð í fréttatímum.“
Það er Almannavarnanefnd Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu sem boðar til fundarins. Ásgeir segir að ekki verði farið yfir rýmingaráætlanir á fundinum, enda séu þær æfðar reglulega og flestir ættu að vera vel skólaðir í þeim.