Sveitarstjórn Rangárþings ytra boðar til íbúafundar á þriðjudagskvöld, 24. ágúst, í íþróttahúsinu á Hellu. Tengibyggingin að Suðurlandsvegi 1 til 3 verður megin viðfangsefni fundarins.
Stjórn einkahlutafélagsins Suðurlandsvegur 1 – 3 ehf. mun sitja fyrir svörum. Framkvæmdir við tengibygginguna hafa legið niðri frá því í lok júlí en fyrsta hæð hússins er á síðustu metrunum. Sveitarfélagið hefur lagt 168 milljónir í framkvæmdina. Sveitarstjórn mun einnig fara yfir stöðu annarra mála í sveitarfélaginu.
Að sögn Guðfinnu Þorvaldsdóttur, setts sveitarstjóra, á sveitarstjórn frumkvæðið að íbúafundinum. „Þetta er í anda nýrra vinnubragða hjá nýrri sveitarstjórn,“ segir hún. „Ef vel tekst til, má búast við að íbúafundir verði reglulegir á kjörtímabilinu.“
Fundurinn hefst klukkan átta og er öllum opinn.