Íbúakosningunni frestað

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum síðdegis í dag að fresta íbúakosningu um skipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og nýrrar hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn.

Samhliða því ítrekar bæjarstjórn að sú ákvörðun um að heimila ekki byggingu mölunarverksmiðju án atkvæðagreiðslu meðal íbúa standi óhögguð.

Blásið var til aukafundar bæjarstjórnar í dag eftir að bæjarfulltrúum barst bréf síðastliðinn miðvikudag frá Eggerti Kristóferssyni forstjóra First Water. Í bréfinu kemur fram afstaða First Water um að óásættanlegt sé að í sömu götu og eldisstöð fyrirtækisins er standi til að byggja mölunarverksmiðju sem fer alls ekki saman við matvælaframleiðslu, né heldur bygging hafnar á því svæði sem First Water sækir jarðsjó.

„Um leið og bæjarstjórn harmar þá stöðu sem upp er komin í aðdraganda íbúakosninga vegna vinnubragða First Water telur hún mikilvægt að nálgast málið af ábyrgð með heildarhagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Sérstaklega er áríðandi að upplýst verði með fullnægjandi og rökstuddum hætti á hvaða rökum fullyrðingar First Water byggja,“ segir í bókun bæjarstjórnar í dag.

Fyrri greinVinnslugeta hitaveitunnar eykst með nýrri holu
Næsta greinJafnt í toppslagnum