Íbúar Árborgar hvattir til að plokka á laugardaginn

Plokkað við Óseyrarbrú. Ljósmynd/Aðsend

Stóri plokkdagurinn er haldinn laugardaginn 25. apríl, á degi umhverfisins. Líkt og undanfarin ár mun Sveitarfélagið Árborg styðja við framtak íbúa og plokksamfélagsins sem vilja stuðla að snyrtilegu umhverfi og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að tína rusl sem víðast.

Frá kl. 9-12 verður unnt að nálgast glæra plastpoka til ruslatínslu og losa sig við afraksturinn í stórsekki að tínslu lokinni á eftirfarandi stöðum: við sjoppurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri, við ráðhús Árborgar á Selfossi, á grænu svæði sunnan við Krambúðina á Selfossi, við íþróttahús Sunnulækjarskóla og við leikskóla Árborgar.

Sekkirnir verða fjarlægðir kl. 13:00 og eftir það má losna við pokana á gámasvæðinu við Víkurheiði, sem er opið frá kl. 10-17. Einnig verður hægt að skila af sér plokki endurgjaldslaust á gámasvæðinu við Víkurheiði mánudaginn 27. apríl nk.

Fyrri grein„Höfum samið hátt í 10.000 spurningar“
Næsta greinGleðilegt sumar!