Íbúar Sveitarfélagsins Árborgar eru í fyrsta skipti orðnir fleiri en 11 þúsund talsins en múrinn var rofinn í dag og íbúarnir eru orðnir 11.003.
Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, vekur athygli á þessu á Facebooksíðu sinni.
Frá 1. maí síðastliðnum hefur íbúum í Árborg fjölgað um 115. Á Selfossi búa í dag 9.421 og hefur fjölgað um 99 frá 1. maí. Á Eyrarbakka búa 596, á Stokkseyri 553 og í Sandvíkurhreppi 352. Óstaðsettir í hús eru 81.
Sé gluggað enn frekar í tölurnar má sjá að frá 1. maí síðastliðnum hafa 160 manns flutt í Árborg en 89 flutt úr sveitarfélaginu. Á sama tíma hafa 34 börn fæðst í Árborg og fjórtán manns látist.
Íbúafjölgunin í Árborg hefur verið hröð síðustu misseri en í lok nóvember árið 2019 voru íbúar Árborgar í fyrsta skipti 10 þúsund talsins.
Árborg er áttunda stærsta sveitarfélag á Íslandi á eftir Mosfellsbæ, þar sem í dag búa 13.227.