Íbúar fari vel með heita vatnið

Selfossveitur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfossveitur hafa sent frá sér tilkynningu þar sem íbúar Árborgar eru hvattir til að fara vel og sparlega með heita vatnið til að minnka álagið á veitukerfið.

Framundan er kuldatíð sem er líkleg að vara í töluverðan tíma. Hjá Selfossveitum er fylgst grannt með veðurspám og er staðan metin dag frá degi. Mikilvægt sé að allir vinni saman í því að draga úr líkum á þjónustuskerðingu.

Bent er á að fólk geti sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað með því að gæta að því að gluggar og útidyr standi ekki opin að óþörfu, ofnar séu rétt stilltir og ekki byrgðir með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar talsvert þurftafrekir á vatn og einnig er gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvask og böð.

Fyrri greinHefur þungar áhyggjur af gríðarlegum hækkunum á raforkuverði
Næsta greinVæri til í að vera Bjarni Ben