„Íbúar fyrir austan fjall leiksoppar tilraunaverkefnis“

Bæjarráð Hveragerðis fordæmir að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands (HES) skuli gefa jákvæða umsögn um tímabundna undanþágu frá hertum ákvæðum í reglugerðum styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

Bæjarráð samþykkti samhljóða bókun á síðasta fundi sínum þar sem vakin er athygli á að sambærilegar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu hafa ítrekað mótmælt þeirri mengun sem nú berst yfir höfuðborgarsvæðið enda er hún heldur meiri þar miðað við mælingar en reyndin er hér fyrir austan fjall.

Bæjarráð undrast þau vinnubrögð að umsögn HES skuli vera falin í fundargerð en ekki skýrt greint frá afstöðu embættisins og íbúar þannig upplýstir um afstöðu HES.

„Með slíkum vinnubrögðum er alið á tortryggni og upplýsingaskylda embættisins að engu höfð. Það vekur reyndar furðu að bréfið til ráðuneytisins skuli vera dagsett 11. mars en fundur stjórnar HES þar sem málið er til umræðu er haldinn 14. mars 2014. Vekur sú staðreynd spurningar um það hvort að stjórn hafi yfirleitt nokkuð haft um málið að segja,“ segir í bókun bæjarráðs.

Bæjarráð furðar sig á því að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur skuli ekki fyrir löngu hafa nýtt sér þær lausnir til mengunarvarna sem vitað er að virka og hafa verið nýttar annars staðar.

„Vonandi mun tilraunaverkefni um niðurdælingu gefa góða raun en á meðan eru íbúar austustu byggða höfuðborgarsvæðisins og íbúar fyrir austan fjall leiksoppar tilraunaverkefnis sem heitir Hellisheiðarvirkjun en berlega hefur komið í ljós að þar var farið af stað meira af kappi en forsjá. Um það eru flestir sammála í dag,“ segir ennfremur í bókuninni.

Fyrri greinSólheimahátíð í Þjóðleikhúsinu
Næsta greinMargrét hættir í Flóahreppi