Það er von á frosti út vikuna og hafa íbúar Sveitarfélagsins Árborgar verið hvattir til að fara vel með heita vatnið og spara það eins og hægt er.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að vegna þessa sé skert þjónusta til sundlauga og íþróttamannvirkja, þar sem varmi til húshitunar er í fyrsta forgangi.
Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri hjá Selfossveitum, sagði í samtali við sunnlenska.is að ólíklegt sé að íþróttahúsum verði lokað, en sundlaug Stokkseyrar og hitakerfið á gervigrasvellinum á Selfossi er lokað, auk þess sem skert þjónusta er í Sundhöll Selfoss.
Með þessum aðgerðum hefur gengið vel að tryggja varma til húshitunar og allt útlit fyrir að svo verði áfram ef ekki koma upp bilanir.