Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu yfirkjörstjórnar sveitarfélagsins varðandi breytingar á kjördeildum í Árborg.
Þar sem íbúum í sveitarfélaginu hefur fjölgað mikið á síðustu árum þykir æskilegt að gera breytingar á kjördeildum sveitarfélagsins og í stað þess að stofna fimmtu kjördeildina á Selfossi lagði yfirkjörstjórn til að kjósendur í Sandvíkurhreppi verði skráðir í kjördeildir á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Þannig munu tæplega 100 íbúar í Tjarnarbyggð sækja kjörstað á Eyrarbakka og aðrir kjósendur í hreppnum, um 137 talsins, verða skráðir í kjördeild á Stokkseyri.
Í umsögn yfirkjörstjórnar segir að miðað sé við að hver kjördeild geti með góðu móti sinnt 1.500 til 1.800 kjósendum en kjördeildirnar við ströndina hafa aðeins verið með um 500 kjósendur hvor. Þær geti því með góðu móti tekið við fleiri kjósendum.
Yfirkjörstjórn telur að þessi leið feli í sér viðaminni breytingu en að loka kjördeildunum tveimur á ströndinni og hafa kjörstað eingöngu í Vallaskóla á Selfossi.
Breytingarnar voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn og taka gildi fyrir komandi Alþingiskosningar í september.