Íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi munu kjósa um skipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn. Niðurstaða kosningarinnar er bindandi.
Kosningin hefst formlega næstkomandi laugardag, þann 18. maí og lýkur þann 1. júní. Hægt er að kjósa á bæjarskrifstofunni en þann 1. júní verður hægt að kjósa samhliða forsetakosningunum í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss.
Íbúum gefst kostur á að kjósa um tillögurnar og verða svarmöguleikar tveir:
Já (ég samþykki skipulagstillögurnar og þar með að fyrirtækið fái heimild til að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).
eða
Nei (ég hafna skipulagstillögunum og þar með að fyrirtækinu verði ekki heimilað að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).
Skipulagstillögurnar verða til kynningar á bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss fram til 1. júní.
Rétt til þátttöku í íbúakosningu hafa þeir sem mega kjósa í sveitarstjórnarkosningum, þ.e. íslenskir, danskir, finnskir, sænskir og norskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri með lögheimili í Ölfusi og aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt.