Nokkrir íbúar við Tryggvagötu á Selfossi tóku sig saman í kvöld og mótmæltu því að umferð um bæinn sé beint um götuna á meðan framkvæmdir við gatnamót Kirkjuvegar og Eyravegar standa yfir.
Framkvæmdir við Kirkjuveg/Eyraveg hófust í morgun og verða gatnamótin lokuð í allt að sex vikur. Á meðan er umferð beint um Fossheiði og Tryggvagötu, en íbúar við Tryggvagötu segja að hún anni alls ekki umferðarþunganum.
Til þess að mótmæla þessu lögðu íbúar bílum sínum í vegkantinum í kvöld og þrengdu þannig að umferð. Þetta hægði töluvert á umferðinni og var hiti í nokkrum ökumönnum á tímabili. Strætóbílstjóri stöðvaði til dæmis og gaf sér góðan tíma til þess að ræða málin, en vagnar strætó eru yfirleitt á hraðferð um götuna að sögn íbúanna, þrátt fyrir 30 km hámarkshraða.
Íbúarnir benda á að Tryggvagatan beri ekki meiri umferð, þar sé nú þegar mikil umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda í kringum Vallaskóla og sundlaugina. Búast megi við frekari „umferðartöfum“ ef bæjaryfirvöld beini ökumönnum ekki um aðrar leiðir í bænum.