Þann 1. júní 2015 voru skráðir íbúar í Rangárþingi eystra samtals 1.772 og hafa þeir aldrei verið fleiri í sveitarfélaginu.
Í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins segir að þetta sé mjög jákvæð þróun og sýni að sveitarfélagið er að styrkjast með tilliti til aukins atvinnuframboðs allt árið.
Í dag er þó nokkur fjölbreytni á atvinnuframboði til viðbótar við stærstu vinnuveitendur í sveitarfélaginu eins og Sláturfélag Suðurlands og starfsfólk sveitarfélagsins.
Helsti vöxturinn er í ferðaþjónustu og þjónustustörfum tengdum greininni, auk þess er á ný nóg að gera hjá iðnaðarmönnum á svæðinu.