Íbúum Sveitarfélagsins Árborgar fjölgaði um 246 á tímabilinu frá 1. desember 2018 til 1. júní 2019. Þetta er hlutfallsleg fjölgun upp á 2,6%.
Íbúar Árborgar voru 9.693 þann 1. júní síðastliðinn og hefur fjölgað um rúmlega 1,3 íbúa á dag á þessu sex mánaða tímabili. Þetta kemur fram í greiningu Þjóðskrár Íslands á íbúafjölda eftir sveitarfélögum.
Í Ölfusi fjölgaði um 73 íbúa á sama tímabili eða um 3,4%. Mesta prósentuaukningin á Suðurlandi var hins vegar í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem fjölgaði um 21 íbúa, eða 4,3%.
Íbúum fjölgar í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi nema Mýrdalshreppi, þar sem fækkar um einn íbúa og Ásahreppi þar sem fækkar um tvo íbúa. Hins vegar fækkar um 35 íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem er 5,5% fækkun og er það ein hlutfallslega mesta fækkunin á landsvísu.
Ef horft er á landið í heild sinni fjölgar íbúum hlutfallslega mest á Suðurlandi. Þar fjölgaði um 490 íbúa eða 1,7%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 1.989 íbúa eða 0,9% og íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 247 íbúa eða 0,9%.