Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 619, eða 2,6%, árið 2020. Mesta tölulega fjölgunin var í Árborg en mesta hlutfallslega fjölgunin var í Ásahreppi.
Íbúum Árborgar fjölgaði um 402, eða 4% og eru þeir nú 10.457. Sú tala skiptist þannig að á Selfossi búa 8.930 manns, 578 á Eyrarbakka, 534 á Stokkseyri og 297 í gamla Sandvíkurhreppi, en í september síðastliðnum urðu íbúar Sandvíkurhrepps í fyrsta skipti 300. Þá eru 118 manns óstaðsettir í hús í Árborg.
Í Ásahreppi fjölgaði íbúum um 21, eða 8,4% og í Mýrdalshreppi fjölgaði um 40 manns, eða 5,6%. Einnig varð talsverð fjölgun í Ölfusinu, þar sem fjölgaði um 93 íbúa eða 4,1% og í Hveragerði fjölgaði um 78 manns, eða 2,9%. Þá fjölgaði um 57 íbúa í Rangárþingi ytra, eða 3,4%. Einnig fjölgaði lítillega í Hrunamannahreppi og Flóahreppi.
Fækkun í fimm sveitarfélögum
Í fimm sveitarfélögum á Suðurlandi fækkaði íbúum árið 2020. Mesta tölulega fækkunin var í Rangárþingi eystra en þar fækkaði um 37 íbúa, eða -1,9%. Mesta hlutfallslega fækkunin var í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem fækkaði um 20 manns eða 3,3%. Einnig varð lítilsháttar fækkun í Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Skaftárhreppi.
Íbúum á Íslandi fjölgaði um 4.689 á liðnu ári, eða um 1,3%. Sé horft á landshlutana er langmesta hlutfallslega fjölgunin á Suðurlandi.
Íbúafjöldi sveitarfélaga á Suðurlandi 1. janúar 2021:
- Árborg 10.457
- Hveragerðisbær 2.777
- Sveitarfélagið Ölfus 2.369
- Rangárþing eystra 1.924
- Rangárþing ytra 1.739
- Bláskógabyggð 1.147
- Hrunamannahreppur 823
- Mýrdalshreppur 758
- Flóahreppur 690
- Skaftárhreppur 624
- Skeiða- og Gnúpverjahreppur 589
- Grímsnes- og Grafningshreppur 491
- Ásahreppur 272