Icelandair semur við IDS á Selfossi um nýja innviði í upplýsingatækni

Fulltrúar IDS á Íslandi og Icelandair í höfuðstöðvum flugfélagsins í Hafnarfirði. Frá vinstri til hægri eru Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri IDS á Íslandi, Davíð Þór Kristjánsson sölustjóri IDS, Guðmundur Kristinn Ögmundsson innviðastjóri hjá Icelandair og Steindór Arnar Jónsson tæknistjóri IDS. Ljósmynd/Hari

Icelandair hefur samið við IDS á Íslandi um kaup og innleiðingu á Nutanix, sem er nýtt upplýsingatækniumhverfi og innviðir sem byggja á hugbúnaði, skýjalausnum og netþjónum með háhraða diskum frá Hewlett-Packard Enterprise.

Sænskur eigandi og breskur bakhjarl
„IDS á Íslandi er ungt fyrirtæki í eigu sænska UT-fyrirtækisins Hexatronic. Það var stofnað haustið 2024 eftir kaup Hexatronic á stórum hluta af rekstri Endor út úr Sýn. IDS á Íslandi veitir, líkt og Endor áður, heildarlausnir í hugbúnaði og vélbúnaði fyrir gagnaver og hýsingarsali fyrirtækja, allt frá hönnun til uppsetningar,“ segir Davíð Þór Kristjánsson, sölustjóri IDS á Íslandi, en fyrirtækið hefur höfuðstöðvar á Selfossi.

Um 2.000 manns starfa hjá Hexatronic og ársveltan er um 100 milljarðar króna á meðan IDS á Íslandi hefur fimm starfsmenn og áætlaða ársveltu 2025 upp á 1,5 milljarða króna. „Okkar helsti bakhjarl og samstarfsaðili er IDS í Bretlandi, sem er dótturfyrirtæki Hexatronic eins og við. Þar starfa um 200 manns og þangað sækjum við bakhjarla í svona stórar uppsetningar,” bætir Davíð Þór við.

Hraðari og öruggari þjónusta
Elísabet Halldórsdóttir, forstöðumaður stafræns rekstrar hjá Icelandair, segir kaupin á þessum nýju innviðum vera mikilvægt skref í þeirri vegferð að einfalda, efla og styrkja upplýsingatækni hjá Icelandair.

„Starfsemi flugfélaga treystir á afköst og skilvirkni í upplýsingatæknikerfum og með Nutanix getur Icelandair veitt hraðari og öruggari þjónustu. Nutanix er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í hugbúnaði fyrir skýjalausnir og þessi nýi búnaður gerir okkur kleift að einfalda verulega rekstrarumhverfið og viðhald þess, auka afköst og stytta svartíma í okkar kerfum,“ segir Elísabet.

Fyrri grein„Mikill heiður og ánægjuleg viðurkenning“
Næsta greinSelfoss aftur upp í 4. sætið