Íhuga að banna smábátasiglingar

Siglingastofnun íhugar að takmarka eða banna alfarið siglingar smábáta um Landeyjahöfn.

Lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum og á Hvolsvelli hafa áhyggjur af aukinni umferð smábáta um höfnina vegna aðstöðuleysis þar. Í fréttum RÚV í kvöld kom fram að siglingar smábáta í Landeyjahöfn voru ræddar á fundi sem lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum og á Hvolsvelli áttu með fulltrúum Siglingastofnunar í gær.

Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, segir í samtali við RÚV til greina koma að banna alfarið siglingar smábáta um höfnina. Annar kostur sé að takmarka þær við ölduhæð í samræmi við stærðir báta. Ekkert hafi frést af fjármunum vegna smábátaaðstöðu sem ekki var gert ráð fyrir í þessum verkhluta.

Sigurður segir að frá upphafi hafi staðið til að Björgunarfélag Vestmannaeyja sæi um björgun á sjó við nýju höfnina. Björgunaraðstaða í Landeyjahöfn geti fyrst orðið að veruleika í tengslum við hugsanlega smábátaaðstöðu.

Einar Jónsson, formaður björgunarsveitar Landeyja, segir það nauðsynlegt að björgunaraðstaða sé í Landeyjahöfn. Það geti tekið björgunarmenn frá Vestmannaeyjum fimmtán mínútur að sigla frá Eyjum, sem sé of langur tími ef eitthvað gerist innan hafnarinnar. Auk þess geti komið upp sú staða að ófært sé fyrir björgunarbátinn Þór inn í Landeyjahöfn.

Fyrri greinFjórtán punda Maríulax í Ytri-Rangá
Næsta greinÍbúar á gossvæðinu fá lögfræðiaðstoð