Gunnar Valgeir Reynisson, pípulagningamaður á Selfossi, íhugar að höfða skaðabótamál vegna málsmeðferðar sem hann fékk hjá sýslumannsembættinu á Selfossi.
Valgeir var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stuld á rotþró og skjalafals árið 2008. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem sýknaði Valgeir af ákæru um þjófnað en dæmdi hann fyrir skjalafals, sem Valgeir játaði.
Hæstiréttur gerði nokkrar athugasemdir við málsmeðferð lögreglunnar á Selfossi. Rotþróarstuldurinn var kærður 27. apríl 2008 og virðist rannsókn hafa lokið að mestu hjá lögreglunni í maí sama ár. Ákæra var hins vegar gefin út nær einu og hálfu ári eftir að rannsókn lögreglu lauk. Engin skýring hefur verið gefin á þessum drætti og segir Hæstiréttur að hann brjóti í bága við meginreglu stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og sömuleiðis mannréttindasáttmála Evrópu.
Einnig eru gerðar athugasemdir við rannsókn lögreglu á málinu sem var um margt ábótavant. Engin vettvangsrannsókn fór fram og ljósmynd af rotþrónni sem stolið var var ekki rannsökuð sérstaklega. Þetta segir Hæstiréttur brjóta í bága við fyrirmæli um meðferð opinberra mála.
Þá gerir Hæstiréttur einnig athugasemdir við dóm héraðsdóms þar sem eru teknir upp orðrétt í löngu máli hlutar úr skýrslu ákærða hjá lögreglu.
Óskar Sigurðsson, lögmaður Valgeirs, staðfesti í samtali við sunnlenska.is í dag að Valgeir íhugi að höfða skaðabótamál vegna þessa.
ATHUGASEMD RITSTJÓRNAR: Í frétt sunnlenska.is af málinu sl. föstudag var ranglega sagt að Hæstiréttur hefði staðfest dóm héraðsdóms vegna beggja ákæruliða. Fréttin hefur verið leiðrétt og eru hlutaðeigandi beðnir afsökunar.