Bæjarráð Árborgar er afar ósátt við áform stjórnvalda um hvernig sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki verði ráðstafað til sveitarfélaganna.
Hluti skattsins fer til sveitarfélaganna til að vega á móti þeim áhrifum sem aðgerðir stjórnvalda vegna verðtryggðra húsnæðisskulda hafa á útsvarstekjur sveitarfélaganna.
RÚV greinir frá þessu.
Að óbreyttum lögum yrði þessum nýju framlögum úthlutað í samræmi við núverandi reglur, sem er ætlað að jafna tekjur sveitarfélaga. Frumvarp innanríkisráðherra gengur hins vegar út á að greiðslunum verði úthlutað í samræmi við hlutdeild sveitarfélaganna í heildarútsvari.
91 umsagnarbeiðni var send út í september og hafa sveitarfélög og aðrir frest til 30. nóvember til að skila inn umsóknum. Sveitarstjórnin í Bláskógabyggð var fyrst til að skila inn umsögn sinni og gerði engar athugasemdir.
Bæjarráðsfulltrúar í Árborg voru ekki jafn sáttir. Þeir gerðu athugasemd við að deila ætti fénu milli sveitarfélaga í samræmi við heildarútsvar sem lagt var á íbúa eftir sveitarfélögum. Bæjarráðsfulltrúarnir benda á að útsvarsgreiðslur í Árborg hafi verið tíu prósentum lægri en meðalútsvar á landinu. Það þýði að Árborg fái minna í sinn hlut heldur en ef mið væri tekið af jöfnunarhlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. „Er það illskiljanlegt hvernig það getur talist sanngjarnt að sérstöku framlagi Jöfnunarsjóðs skuli eiga að ráðstafa þannig að þau sveitarfélög sem þegar hafa mestar tekjur fái bróðurpartinn en hin sitji eftir með sárt ennið,“ segir í umsögn bæjarráðs Árborgar.