Mæðgurnar Þórunn Lilja Hilmarsdóttir og Helena Daley Tómasdóttir á Selfossi hafa vakið athygli fyrir einstök og eiturefnalaus kerti sem þær hafa verið að búa til í sameiningu.
Kertin framleiða mæðgurnar undir nafninu Daley kerti og hófu þær kertagerðina nú í sumar.
„Mig hefur alltaf langað að prófa kertagerð en aldrei stigið það skref til fulls. Maðurinn minn, Tómas, segir að ég sé mjög framkvæmdaglöð og fæ ég allskonar flugur í hausinn. Þegar maður er hvatvís þá getur maður gert allskonar af sér. Það var einmitt eitt skiptið sem ég sat í símanum og var að vafra um á netinu þegar ég fékk þá flugu að mig langaði að prufa þetta bara í gamni og keypti allskonar hluti og fann eiturefnalaust vax eftir mikla leit frá Hollandi,“ segir Þórunn í samtali við sunnlenska.is.
Mikil gæðastund
„Við byrjuðum seint í sumar að leika okkur við þetta öll fjölskyldan saman, og ég var alveg að fara gefast upp því þetta kom allt svo asnalega út hjá okkur. En með æfingunni þá kom þetta bara allt í lagi út hjá okkur og þá fannst okkur bara tilvalið að koma kertunum okkar út og leyfa fleiri að njóta með okkur.“
Þórunn segir að kertagerðin sé mikil gæðastund hjá þeim mæðgum. Fyrr á árinu eignuðumst við aðra dóttir og það er sex ára aldursmunur á stelpunum okkar, svo kertagerðin er svolítið sem við mæðgurnar eigum saman, okkar gæðastund saman. Nafnið Daley kerti kemur frá henni en hún heitir Helena Daley. Daley nafnið er mér kært því hún er kennd við Dalasýslu og Breiðafjörðinn þar sem mamman ólst upp.“
Frábærar viðtökur
Daley kerti þykja mörg hver það mikið listaverk að það er alls kostar óvíst hvort fólk tími hreinlega að kveikja á þeim. „Kertin okkar eru dásamlega falleg, ilmandi góð og öðruvísi en það sem margir eru að selja.“
„Viðtökurnar hafa verið hreint frábærar og við mæðgur höfum ekki undan að gera kerti. Við erum búin að vera á nokkrum mörkuðum og til dæmis eftir seinustu helgi kláraðist næstum allt! Svo núna gerum við ekki annað en að gera kerti eftir skóla hjá dótturinni.“
„Við finnum að það er greinilega mikil eftirsókn eftir eiturefnalausum kertum, það eru gjörsamlega enginn aukaefni í þessum kerti, þau eru eins hrein og þau geta verið. Við verðum svo á jólamarkaði MFÁ næsta laugardag frá klukkan 13-16 í Sandvíkursetrinu,“ segir Þórunn að lokum.
Hægt er að finna frekari upplýsingar um Daley kerti á Instagram og Facebook.