Inger Erla kjörin forseti ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi

Inger Erla Thomsen. Ljósmynd/Aðsend

Inger Erla Thomsen var í gærkvöldi kjörin forseti Sigríðar, félags ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi, á fyrsta aðalfundi félagsins í rúman áratug.

Kosið var um nýtt nafn félagsins og heitir félagið nú Sigríður – Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi. Nafnið vísar til Sigríðar í Brattholti sem er sögð vera fyrsti náttúruverndarsinni Íslands – en hún kom í veg fyrir að Gullfoss yrði virkjaður á sínum tíma.

Þau sem einnig voru kosin í stjórn Sigríðar eru Ástþór Jón Ragnheiðarson varaforseti, Hafþór Ingi Ragnarsson gjaldkeri, Emil Gunnlaugsson ritari, ásamt Sigurði Inga Magnússyni, Eggerti Arasyni og Maríu Skúladóttur meðstjórnendum.

Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að Sigríður – UJS muni forgangsraða loftslagsmálum í baráttu sinni fyrir bættu samfélagi og beita sér gegn auknu atvinnuleysi.

„Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi munu berjast fyrir réttlæti, velferð, jöfnuði og grænni uppbyggingu með hagsmuni ungs fólks og allra Sunnlendinga að leiðarljósi. UJS verður vettvangur þar sem ungt fólk getur varpað fram hugmyndum, skipst á skoðunum og barist gegn spillingu, kynþáttafordómum og hvers lags óréttlæti.“

Yfirlýsinguna í heild má lesa hér að neðan.

Yfirlýsing Sigríðar – Ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi vegna endurvakningar félagsins. Samþykkt á aðalfundi 27. október 2020. 

Sigríður – Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi (UJS) vilja búa til vettvang fyrir ungt róttækt hugsjónafólk á Suðurlandi sem hingað til hefur vantað. Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi munu berjast fyrir réttlæti, velferð, jöfnuði og grænni uppbyggingu með hagsmuni ungs fólks og allra Sunnlendinga að leiðarljósi. UJS verður vettvangur þar sem ungt fólk getur varpað fram hugmyndum, skipst á skoðunum og barist gegn spillingu, kynþáttafordómum og hvers lags óréttlæti. Hreyfingin hefur það markmið að auka samkennd ungs fólks með áherslu á samfélagslega ábyrgð og mun beita sér fyrir því að ungt jafnaðarfólk á Suðurlandi hafi rödd, bæði innan flokks og utan. 

Eitt af því sem UJS mun beita sér gegn á þessum erfiðu tímum er aukið atvinnuleysi á Suðurlandi, sem hefur sjaldan, ef nokkurn tímann, verið eins hátt. Á svona tímum er mikilvægt að auka tækifæri ungs fólks á Suðurlandi á vistvænan og framsækinn hátt, til dæmis með fjárfestingu í nýsköpun, styrkjum til mennta- og menningarmála og fjárveitingum til grænna umbóta. Það er sóun á þekkingu, reynslu og hæfileikum að vinnufúst fólk sitji heima á atvinnuleysisbótum. Fjárfestingar á þessu sviði munu skila sér margfalt til baka til sunnlensks samfélags. 

Á þessum krepputímum má þó ekki gleyma stærstu áskorun mannkynsins, loftslagsvánni. Ungt fólk um heim allan hefur risið upp síðastliðin ár og neitað að leyfa hlutunum að ganga sinn vanagang. Mannkynið getur ekki haldið áfram að ganga á auðlindir jarðarinnar og vill UJS stuðla að samfélagi sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi. UJS mun krefjast metnaðarfullra aðgerða af hálfu sunnlenskra sveitarfélaga við gerð loftslagsstefnu en öllum sveitarfélögum landsins er skylt að vinna loftslagsstefnu fyrir lok árs 2021. Sunnlensk sveitarfélög hafa sýnt vilja í verki og má þar nefna tilraunaverkefni með gerjun úrgangs í Rangárvallasýslu ásamt samstarfsverkefni sex sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu að hreinsun, verkun og förgun seyru, en betur má ef duga skal. Í þessu þurfum við öll að leggja hönd á plóg og mun UJS leggja allt sitt í sölurnar til þess að raddir ungs fólks á Suðurlandi heyrist á sviði loftslagsmála. Krafan um róttækar aðgerðir í loftslagsmálum eru ekki til samninga af hálfu UJS.

Sigríður – Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi mun forgangsraða ofangreindum málum á komandi misserum en aðalmarkmið UJS verður að efla stjórnmálaþáttöku ungs fólks á Suðurlandi. Krefjandi tímar eru framundan og er nauðsynlegt að aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga taki mið af hagsmunum ungs fólks. UJS mun halda hagsmunum þeirra á lofti með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi. Ungt fólk innan UJS er svo sannarlega reiðubúið að leggja sitt af mörkum til þess að skapa sanngjarnara og blómlegra samfélag.

Fyrri greinÁfram gul viðvörun í kvöld
Næsta greinRjúpnaveiðar hefjast á sunnudag