Ingi Björn ráðinn staðarhaldari á Hrafnseyri

Ingi Björn Guðnason. Ljósmynd/Gunnar Marel Hinriksson

Selfyssingurinn Ingi Björn Guðnason hefur verið ráðinn staðarhaldari á Hrafnseyri við Arnarfjörð og tók hann formlega við starfinu í síðasta mánuði. Ingi Björn var ráðinn úr hópi 17 umsækjenda.

„Mér líst vel á þetta starf og ég hlakka til að takast á við það. Umhverfi staðarins er stórkostlegt og Arnarfjörðurinn engu líkur. Sem fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar skipar Hrafnseyri ákveðinn sess í þjóðarvitundinni, en saga hans er líka merkileg aftur í aldir. Þetta var höfuðból á Vestfjörðum og heiti staðarins er tilkomið vegna þess að Hrafn Sveinbjarnarson, goðorsmaður og fyrsti Íslendingurinn til að nema læknisfræði á 13. öld bjó þar,“ sagði Ingi Björn í samtali við sunnlenska.is.

„Þá hafa mjög spennandi fornleifarannsóknir verið gerðar á Hrafnseyri og nágrenni undanfarinn áratug, undir forystu Margrétar Hallmundsdóttur, fornleifafræðings. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós stórmerkilegar minjar frá landnámsöld og Sturlungaöld,“ sagði Ingi Björn ennfremur og bætti við að það séu spennandi tímar framundan á Hrafnseyri.

„Framundan er vinna við að móta starfsemina til framtíðar. Í sumar verður starfsemin þó með hefðbundnu sniði. Sýning um ævi og störf Jóns Sigurðssonar verður opin ásamt kaffihúsi í burstabænum og svo verður bryddað upp á viðburðum yfir sumarið,” sagði staðarhaldarinn að lokum.

Ingi Björn er með meistarapróf í almennum bókmenntafræðum frá Háskóla Íslands og hefur starfað um 15 ára skeið við Háskólasetur Vestfjarða. Áður hefur hann starfað við dagskrárgerð í útvarpi og sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini. Ingi Björn hefur mikla reynslu á sviði markaðs- og vefmála, skipulaginingu menningarviðburða og miðlun menningarefnis.

Á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósmynd/Stjórnarráðið
Fyrri greinKatla og Einar best á Selfossi
Næsta greinElvar Gunn fyrsti gestasöngvari Hr. Eydís