Sunnlendingar eiga þrjú af þeim tólf lögum sem keppa um að verða framlag Íslands í Eurovision söngkeppninni í Stokkhólmi í vor. Lögin í keppninni voru kynnt í kvöld á RÚV.
Hvergerðingurinn Helgi Valur Ásgeirsson mun flytja lagið Óvær en Karl Olgeirsson er höfundur bæði lags og texta.
Júlí Heiðar Halldórsson frá Þorlákshöfn á lagið Spring yfir heiminn, en texta þess samdi hann með Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Sá síðarnefndi flytur lagið ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur.
Að lokum er það Selfyssingurinn Ingólfur Þórarinsson sem á bæði lag og texta við lagið Fátækur námsmaður. Ingó flytur lagið sjálfur en þetta er í annað sinn sem hann syngur í forkeppninni. Hann keppti síðast árið 2009 og varð þá í 2. sæti á eftir Jóhönnu Guðrúnu.
Á vef RÚV kemur fram að söngvakeppnin verði nú með einstaklega glæsilegu sniði í tilefni af því að 30 ár eru síðan Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovisonkeppninni.
Fyrri undankeppnin fer fram í Háskólabíói laugardaginn 6. febrúar nk., seinni undankeppnin verður þar viku síðar, en keppninni lýkur svo með glæsilegri úrslitakeppni í Laugardalshöll þar sem öllu verður til tjaldað.
Eins og í fyrra býðst almenningi að sjá keppnina með eigin augum á þessum stöðum en almenn miðasala á viðburðina 6. janúar.