Þykkt öskumistur liggur nú yfir Flóanum og á Selfossi sést ekki til Ingólfsfjalls.
Vegfarandi sem ók vestur Suðurlandsveg um miðjan dag í dag lýsti mistrinu þannig að það lægi vestur að Þjórsá og þaðan niður að ströndinni og vesturúr. Laust eftir klukkan fimm færðist mistrið upp Flóann, yfir Sandvíkurhreppinn og Selfoss og er skyggni þar nú aðeins nokkur hundruð metrar. Víða hafa menn fundið brennisteinsfnyk í nágrenni Selfoss.
Selfyssingar hafa lagt út hvíta diska sem fljótlega safnaðist fíngerð aska á, auk þess sem hún er á milli tannanna á fólki – í orðsins fyllstu merkingu.