Innbrot á gámasvæðum á Selfossi og Strönd

Gámasvæði Árborgar. Ljósmynd/Árborg

Brotist var inn í aðstöðu gámastöðvarinnar við Víkurheiði á Selfossi í lok mars og viku síðar var brotist inn í aðstöðu á gámasvæðinu á Strönd á Rangárvöllum.

Lögreglan fékk tilkynningu um innbrotið á Selfossi þann 27. mars og þann 3. apríl var tilkynnt um innbrotið á Strönd. Í báðum tilvikum voru unnar skemmdir á innanstokksmunum og á Selfossi var skiptimynt stolið. Ekki er að sjá að neinu hafi verið stolið á Strönd.

Lögreglan vinnur að því að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum en allir sem telja sig hafa upplýsingar um þessi mál eru beðnir um að koma þeim til lögreglunnar.

Fyrri greinÁ fleygiferð í gegnum vinnusvæði
Næsta greinÁtta í einangrun á Selfossi