Brotist var inn í aðstöðu gámastöðvarinnar við Víkurheiði á Selfossi í lok mars og viku síðar var brotist inn í aðstöðu á gámasvæðinu á Strönd á Rangárvöllum.
Lögreglan fékk tilkynningu um innbrotið á Selfossi þann 27. mars og þann 3. apríl var tilkynnt um innbrotið á Strönd. Í báðum tilvikum voru unnar skemmdir á innanstokksmunum og á Selfossi var skiptimynt stolið. Ekki er að sjá að neinu hafi verið stolið á Strönd.
Lögreglan vinnur að því að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum en allir sem telja sig hafa upplýsingar um þessi mál eru beðnir um að koma þeim til lögreglunnar.