Mjög mikil umferð var í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í dag og gekk hún stóráfallalaust.
Þó varð árekstur á Suðurlandsvegi í dag þar sem tvö mótorhjól lentu aftan á bíl við Hveragerði og þriðja hjólið sem kom aðvífandi lenti á öðru hjólanna. Ekki urðu slys á fólki en eitt mótorhjólið var óökufært.
Þá fipaðist konu á fjórhjóli nálægt Borg í Grímsnesi síðdegis. Óhappið reyndist minniháttar en konan var flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Auk þessara mála hefur lögreglan haft afskipti af ökumönnum vegna hraðakstur. Tveir mótorhjólamenn voru stöðvaðir á Hellisheiði í morgun og voru báðir ölvaðir. Annar þeirra ók á 136 km hraða.
Í dag var einnig tilkynnt um fjögur innbrot í sumarbústaði í umdæmi Selfosslögreglunnar. Þaðan var stolið flatskjám, dýrum hljómflutningstækjum og áfengi. Þjófarnir líta ekki við gamaldags túbusjónvörpum og sumir þeirra eru vandfýsnir á veigarnar. Þannig var kældu kampavíni og hvítvíni stolið úr einum bústaðanna en rauðvín sem geymt var við herbergishita var skilið eftir.