Annað árið í röð geta jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli því miður ekki komið saman yfir Ölfusárbrú og heilsað upp á íbúa Selfoss og nágrennis nú í desember, eins og þeir eru vanir.
Sunnlenska.is barst tilkynning um þetta ofan úr Ingólfsfjalli nú síðdegis. Undir hana rita – mis vel reyndar – bræðurnir þrettán.
„Meðan gildandi sóttvarnartakmarkanir segja til um að ekki mega fleiri en 50 koma saman, teljum við ekki forsvaranlegt að stefna fjölda fólks saman til að hitta okkur,“ segja þeir bræður og senda bestu jólakveðjur til allra með von um að geta verið á ferðinni um næstu jól.