Innri hluti Landeyjahafnar rannsakaður

Rannsóknir á innri hluta Landaeyjahafnar standa nú yfir í líkanhúsi Vegagerðarinnar í Kópavogi. Herjólfur hreyfist heldur mikið á stundum þegar hann liggur við bryggju í höfninni og leitað er leiða til að draga úr ölduhreyfingum inn í höfninni.

Skipstjórar Herjólfs skoðuðu líkanið og rannsókninnar í dag til að gefa álit sitt á hugsanlegum breytingum og hvað mætti rannsaka betur.

Með líkaninu er líkt eftir aðstæðum í höfninni svo sem kostur er. Smíðað hefur verið líkan af nýjum Herjólfi sem notað er til viðmiðunar. Vél útbýr öldur í óskaðri stærð og með þeirri öldutíðni sem rannsökuð er hverju sinni. Nú hafa verið skoðaðar breytingar á höfninni varðandi að lengja innri hafnargarð og setja á báða enda hans svo kallaða tunnu, skoðaðar hafa verið breytingar sem skapast við að bryggjan verði lokuð þannig að aldan fari ekki inn undir bryggjuna og einnig að stækka innri höfnina til austurs sem myndi draga úr ölduóróa innan hafnar.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að þessar breytingar myndu hafa þó nokkuð mikil áhrif á öldufar innan hafnar til hins betra.

Eftir yfirferð með skipstjórum Herjólfs verðu nú einnig rannsakaðar tilfærslur á eystri hafnargarðinum innan hafnar til að finna út bestu mögulegu útkomu þannig að þrengja þurfi innri hafnarkjaftinn sem minnst, þannig að svigrúm Herjólfs verði sem mest hverju sinni.

Stækkun hafnarinnar mun einnig leiða til þess að Herjólfur mun eiga mun auðveldara með að snúa við og almennt athafna sig innan hafnar sem er mikilvægt þegar veður eru að öðru leyti óhagstæð siglingum í Landeyjahöfn.

Frá þessu er greint á heimasíðu Vegagerðarinnar

Fyrri greinHandtekinn eftir minniháttar líkamsárás
Næsta greinLeitað að íbúðum fyrir flóttamenn