Háskólafélag Suðurlands hefur fengið samþykkt að IPA samningur um verkefnið Katla Geopark verði efndur en samningsupphæðin lækkuð úr 90 milljónum króna í 78 milljónir króna.
Félagið bregst við lækkuninni með lækkun útgjalda að sögn Sigurðar Sigursveinssonar, framkvæmdastjóra.
„Við náum þessum niðurskurði með því að fækka salernum úr fimm í þrjú og fækka áfangastöðum úr 25 í 24 og hætta við kynnisferð til Evrópu og ráðstefnu hér innanlands,” segir Sigurður.
IPA verkefnið er alhliða byggðaþróunarverkefni þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu innviða með sérstakri áherslu á uppbyggingu áningarstaða ferðamanna, eflingu mannauðs á svæðinu með námskeiðahaldi, gerð markaðs- og rekstraráætlunar fyrir jarðvanginn og gerð fræðsluefnis fyrir námsmenn, ferðamenn og almenning. Einnig er ætlunin að styrkja uppbyggingu salernisaðstöðu við Fjaðrárgljúfur á Síðu, í Reynisfjöru og væntanlega við gönguleiðina um Fimmvörðuháls
Eina byggðaþróunarverkefnið sem fékk IPA styrk
„Ég held að fullyrða megi að verkefnið Katla jarðvangur sé dæmi um einstaklega vel heppnað verkefni þar sem félag í eigu sveitarfélaganna 14 á Suðurlandi (að undanskildum Vestmannaeyjabæ) hefur í góðri samvinnu við heimamenn náð að koma á laggir nýsköpunarverkefni sem nú þegar hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu, bæði með því að komast í fyrstu atrennu inn í UNESCO Global Geoparks Network og verða eina byggðaþróunarverkefnið sem fékk IPA styrk frá Evrópusambandinu,“ segir Sigurður.
Hann segir fjárveitingavaldið á Íslandi hins vegar ekki hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Verkefnið hafi fengið 1,5 milljónir króna á fjárlögum 2011 og hálfa milljón króna af safnliðum fjárlaga ársins 2012 og þrjúhundruð þúsund árið 2013.
„Það verður fróðlegt að sjá hvort íslensk stjórnvöld sjái sér fært að styðja við verkefnið á næstu fjárlögum en sveitarfélögin, sem standa að jarðvanginum, eru fámenn og byggðaþróun á meginsvæði jarðvangsins hefur verið óhagstæð undanfarin ár,“ segir Sigurður. „Í öllu falli er ljóst að þess evrópska stuðnings, sem við höfum notið undanfarin tvö ár, lýkur nú í sumar.“