Óvenju margir bjarthegrar hafa heimsótt Ísland í ár og hafa þeir sjaldan verið fleiri síðasta áratuginn. Þórir N. Kjartansson, fuglaljósmyndari, myndaði tvo hegra í Mýrdalnum síðastliðinn föstudag.
Bjarthegrinn (l. Egretta garzetta) hefur sést sjaldnar en sextíu sinnum hér á landi en þar af hafa tíu fuglar sést í ár. Fuglarnir voru í góðu yfirlæti við Höfðabrekkutjarnirnar en það sem vakti athygli Þóris var að annar fuglinn var merktur og höfðu þær merkingar verið settar á hann sem unga í Galway á Írlandi þann 4. júní síðastliðinn.
Bjarthegrinn var nánast útdauður á Bretlandseyjum en hefur náð góðri fótfestu aftur og meðal annars sest að á Írlandi, þar sem hann sást ekki fyrr. Nú spyrja fuglafræðingar sig að því hvort þessi gríðarlega fjölgun á fuglum á Bretlandseyjum valdi því að komum þeirra til Íslands hafi fjölgað.