Íshellan sígur jafnt og þétt

Grímsvötn. Mynd úr safni.

Sighraði á íshellunni í Grímsvötnum hefur haldist nokkuð jafn í nótt. GPS mælir Veðurstofunnar sýnir að hellan hefur sigið um 25 sm frá því um kl. 10 í gærmorgun.


Engar markverðar breytingar hafa mælst í Gígjukvísl hvort sem er vatnshæð, rafleiðni né gas.

Vísindaráð almannavarna fundaði í gær um stöðu mála í Grímsvötnum. Mælingar sýna að Grímsvatnahlaup sé í vændum en miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4-8 dögum eftir það. 

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa mælst nú.

Fyrri greinKór ML í jólastreymi í kvöld
Næsta greinHvergerðingar ætla að brúka bekki