Hvítá flæddi yfir bakka sína við Auðsholt í Hrunamannahreppi í morgun og fer yfir Auðsholtsveg þannig að hann er ófær að hluta. Vegurinn liggur við ármót Hvítár, Stóru-Laxár og Litlu-Laxár.
„Þetta er ekkert stórkostlegt, þetta er algengt hjá okkur og hefur oft verið meira. Það er 40-50 sentimetra djúpt vatn á veginum á löngum kafla en hann er jeppafær. Það er að lækka í ánni aftur núna,“ sagði Steinar Halldórsson, bóndi í Auðsholti 4, í samtali við sunnlenska.is. Hann telur ekki að um krapastíflu sé að ræða.
„Það er mikill ís á ánni, þannig að vatnið kemst ekki sína leið en ísinn er svo þykkur að þetta lyftist allt upp. Það þarf hins vegar mikið meira vatn til þess að koma ísnum öllum af stað,“ bætti Steinar við.
Hrossin vita meira
Heimamenn í Auðsholti hafa fylgst vel með ánni síðustu daga og Steinar segir að það hafi verið viðbúin því að áin færi upp.
„Ég tók hrossin heim á hólinn í gær, ég þorði ekki öðru. Það þarf að huga að þessu, þó að heimahrossin viti miklu meira heldur en hrossin sem eru í hagagöngu. Það var þannig í stórflóðinu 2006, sem var leysingaflóð, að þau komu sér sjálf af mýrinni og voru komin heim að hliði daginn áður en flæddi,“ sagði Steinar að lokum.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er ennþá þykkur ís á Hvítá og Ölfusá á köflum, þrátt fyrir leysingar síðustu daga. Hætta á krapastíflumyndun eykst í leysingum.