„Það er rétt, meirihluti okkar starfsmanna í upptöku á útiræktuðu grænmeti þessar vikurnar eru Pólverjar, allt harðduglegt fólk, sem kemur eingöngu til Íslands í þessa vinnu.
Við höfum verið að fá sama fólkið ár eftir ár, þau komu hér fyrst sem unglingar en eru nú orðin fullorðið fólk,“ segir Friðrik R. Friðriksson, ræktunarstjóri hjá Garðyrkjustöðinni Jörfa á Flúðum þegar hann var spurður hvort Pólverjarnir væru áberandi í upptökunni.
„Íslendingar fást ekki í þessi störf og því leitum við til Póllands, það er ekkert flóknara en það,“ bætir Friðrik við.
Uppskera í meðallagi
Friðrik segir að uppskera sumarsins verði í meðallag. „Þetta er mesta rigningasumar, sem ég hef upplifað í þau tuttugu og sjö ár sem ég hef starfað í garðyrkju og er uppskeran eftir því, eða í meðallagi. Vorið fór mjög vel af stað og þetta leit allt vel út en síðan hefur lítið sem ekkert sést til sólar í sumar og því hefur grænmetið ekki náð að vaxa eins og garðyrkjubændur hefðu viljað“, bætir Friðrik við.
Hann segir að nú sé allt útiræktað grænmeti komið á markað og viðtökurnar séu góðar. „Já, Íslendingar og útlendingar eru brjálaðir í nýtt og ferskt grænmeti, við getum ekki kvartað undan því, grænmetið er rifið út úr verslununum, við eigum að eiga nóg handa öllum,“ segir Friðrik.