Í dag var undirritað samkomulag um sameiginlegt markaðsátak sem hvetja á Íslendinga til ferðalaga innanlands.
Aðilar að samkomulaginu eru Ferðamálastofa, markaðsstofur allra landshluta og Ferðaþjónusta bænda.
Verkefninu er ætlað að skila mun betri nýtingu fjármuna og markvissari markaðssetningu öllum aðilum í ferðaþjónustu til heilla. „Íslendingar ættu hiklaust að leyfa sér að vera ferðamenn á Íslandi og greiða fyrir þjónustu og afþreyingu, fá leiðsögn um okkar einstæðu náttúru- og menningarminjar, panta gistingu og kaupa góðan mat,“ sagði Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, í kjölfar undirritunarinnar.
Ólöf bætti því við að Ísland sé kraumandi af spennandi ævintýrum fyrir alla fjölskylduna. „Hér heima er hægt að upplifa svo margt sem er alveg einstakt á heimsvísu.“ Átakið mun standa næstu þrjú árin og í sumar verður nýtt vefsvæði undir formerkjum herferðarinnar opnað.