Íslenski þjóðbúningurinn vekur mikla athygli

Hlín syngur meðal annars íslensk sönglög í Grikklandi. Ljósmynd/Aðsend

Hlín Leifsdóttir, sópransöngkona og ljóðskáld, hefur nú í desember komið fram á grísku sjónvarpsstöðinni Nea Smyrni TV og á Íslandsviðburði á vegum flugvallarins Eleftherios Venizelos í Aþenu.

Hlín syngur íslensk og erlend sönglög og frumflutti eigin friðarkvæði Sól, stattu kyrr, við tónlist eftir gríska tónskáldið Michalis Stavropoulos og Hlín sjálfa. Hlín var tekið afar vel þar sem hún kom fram og ljóð eftir Hlín var valið til birtingar í dagatali grísku mannúðarsamtakanna Keerfa.

Á þessum viðburðum hefur Hlín komið fram í þjóðbúningi frá Ragnhildi Birnu Jónsdóttur á Hvolsvelli. Í Grikklandi er rík þjóðbúninga- og þjóðdansahefð og vekur íslenski þjóðbúningurinn mikla athygli og aðdáðun, ekki síst skotthúfan.

Hlín í myndveri með stjórnanda þáttarins. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur Birna er annáluð hagleikskona þegar kemur að saumaskap en hún hefur saumað á annan tug þjóðbúninga á sína fjölskyldu og hefur hópurinn hennar verið duglegur við að halda merkjum íslenska þjóðbúningsins á lofti.

Menningarnefnd Rangárþings eystra verðlaunaði Ragnhildi meðal annars árið 2021 fyrir varðveislu menningararfs Íslendinga og nú hefur hróður saumakonunnar á Hvolsvelli borist alla leið suður á Balkanskaga.

Ragnhildur ásamt fjölskyldu og vinum í fallegum þjóðbúningum en myndin var tekin á 17. júní 2020. Ljósmynd/Rangárþing eystra
Fyrri greinPerla og Sigurður íþróttafólk Umf. Selfoss – Gunnar sæmdur gullmerki
Næsta greinBest í að bulla eitthvað gómsætt