Fimmtíu og einn nýstúdent brautskráðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni síðastliðinn laugardag. Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Ísold Egla Guðjónsdóttir frá Selalæk í Rangárþingi ytra en hún var með aðaleinkunnina 9,31 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum.
Semi Dux nýstúdenta var Sigurborg Eiríksdóttir frá Seljavöllum í Hornafirði með aðaleinkunnina 9,22. Þær Ísold og Sigurborg hlutu, sem og fjöldi annarra nýstúdenta, viðurkenningar kennara og fagstjóra skólans sem og háskóla og sendiráða fyrir afburða árangur í hinum ýmsu greinum. Nýstúdentar sem setið höfðu í stjórn nemendafélagsins Mímis hlutu og viðurkenningu fyrir störf sín. Eins hlaut Andrés Pálmason, Laugarvatni, sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans og nemendafélagsins.
Þrjár fengu styrk úr styrktarsjóði Kristins og Rannveigar
Veitt var úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, fyrrverandi skólameistarahjóna, hið tólfta sinni þeim “nýstúdentum sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi” eins og stendur í stofnskrá að skuli gera. Þær Ísold Egla og Sigurborg hlutu styrki ásamt Þórnýju Þorsteinsdóttur, frá Rauðuskriðum í Rangárþingi eystra.
Vel mætt hjá 65 ára júbilöntum
Sérlega ánægjulegt var að á brautskráningu mættu 65 ára júbilantar, en þeir voru í fyrsta árgangnum sem brautskráðist frá skólanum, vorið 1954. Tíu sveinar útskrifðust þá og eru átta þeirra enn á lífi og mættu þeir allir. Þeir eru Þórður Kr. Jóhannsson, Unnar Stefánsson, Sveinn J. Sveinsson, Óskar H. Ólafsson, Árni Bergmann, Víglundur Þór Þorsteinsson, Tryggvi Sigurbjarnarson og Hörður Bergmann.