Forsætisráðherra, að fenginni tillögu Minjastofnunar, hefur ákveðið að friðlýsa sumarhúsið Ísólfsskála á Stokkseyri.
Friðlýsingin nær til hússins í heild ásamt steinhlaðinna garða á lóðarmörkum. Sigurður Ingi Jóhannsson undirritaði friðlýsingarbréfið þann 7. september sl.
Ísólfsskáli hefur bæði byggingarlistalegt og menningarsögulegt gildi. Það var byggt árið 1962 fyrir dr. Pál Ísólfsson, dómorganista og tónskáld, sem átti ættir að rekja til Stokkseyrar.
Húsið teiknaði Gunnar Hansson, arkitekt, en í húsinu teflir hann saman hreinum formum módernismans og íslenskri byggingarhefð og tengir húsið bæði við umhverfi sitt og fortíðina, með steinhlöðnum veggjum og görðum því steinhlaðnir garðar hafa einkennt byggðina á Stokkseyri um aldir.
Eigendur Ísólfsskála eru systurnar Helga og Hildigunnur Gunnarsdætur, dætur Gunnars Hanssonar arkitekts.