„Ég hef verið í sveitarstjórnar- og landsmálapólitík frá árinu 1990. Byrjaði á þessum árstíma sem sveitarstjóri Hvolhrepps. Mér finnst tími til kominn að hætta og horfa á björtu hliðarnar.“
Þetta segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sem ákveðið hefur að láta af störfum í vor, eftir 28 ár í opinberu starfi. Morgunblaðið greinir frá þessu.
Ísólfur Gylfi var sveitarstjóri á Hvolsvelli í fimm ár, var síðan alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn á Suðurlandi á árunum 1995 til 2003. Eftir það varð hann sveitarstjóri í Hrunamannahreppi en sneri aftur á heimaslóðir árið 2010. Hann hefur verið í forystu lista framsóknarmanna sem haft hafa hreinan meirihluta í sveitarstjórn og jafnframt starfað sem sveitarstjóri.