Ístak hf í Mosfellsbæ átti lægsta tilboðið í breikkun Hringvegarins frá Hveragerði og niður fyrir Hveradali. Tilboð Ístaks hljóðaði upp á rúma 1,3 milljarða króna.
Tilboð Ístaks var upp á 1.320 milljónir króna en tilboð Vörubifreiðastjórafélagsins Mjölnis á Selfossi var rúmum 23 milljónum hærra, eða 1.343 milljónir króna. Þetta voru einu tilboðin sem voru undir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 1,4 milljarðar króna.
Loftorka og Suðurverk buðu saman rúmlega 1.431 milljón króna og ÍAV átti hæsta tilboðið, tæplega 1.456 milljónir króna.
Um er að ræða breikkun Hringvegarins á 14,8 km kafla frá Hamragilsvegamótum að hringtorginu við Hveragerði og gerð 1,8 km langs vegar, Skíðaskálavegar, frá Hamragilsvegi að skíðaskála í Hveradölum.
Innifalið í verkinu er lögn fernra undirganga úr stálplötum á Hringvegi og steyptur stokkur yfir lagnir Orkuveitu Reykjavíkur á Skíðaskálavegi.
Verkinu á að vera lokið í síðasta lagi þann 1. nóvember 2015.