Ístak hf átti lægsta tilboðið í nýja brú yfir Stóru-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi en tilboð í verkið voru opnuð í gær.
Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 791,3 milljónir króna og var 81,7% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var rúmlega 968,4 milljónir króna.
PK verk og PK byggingar buðu 883,5 milljónir króna, heimamenn í Landstólpa 969,5 milljónir og ÞG verktakar buðu rúmlega 1,3 milljarða króna í verkið.
Nýja brúin verður verður til hliðar við núverandi brú, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú, 145 m löng í fjórum höfum. Nýjar vegtengingar að brúnni eru rúmlega 1 kílómetri, auk þess sem nýr reiðstígur verður lagður að núverandi brú.
Verkinu á að vera lokið í síðasta lagi 30. september á næsta ári.
Í gær voru einnig opnuð tilboð í byggingareftirlit og ráðgjöf vegna brúarsmíðinnar. Fjórar verkfræðistofur buðu í verkið og í næstu viku verður tilkynnt stigagjöf í hæfnisvali og verðtilboð hæfra bjóðenda.