Ístak hf átti lægsta tilboðið í byggingu fjölnota íþróttahúss á Selfossi og Borgarverk ehf bauð lægst í jarðvinnu vegna framkvæmdarinnar.
Tilboð í verkin voru opnuð í síðustu viku. Í þessum fyrsta áfanga hússins er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og mun húsið rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar.
Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 1.119 milljónir króna og þar á eftir kom Eykt ehf með tilboð upp á 1.130 milljónir. JÁVERK efh bauð 1.156 milljónir og ÍAV hf 1.192 milljónir króna.
Sjö verktakafyrirtæki buðu í byggingarvinnuna og voru öll tilboðin yfir kostnaðaráætlun verkkaupa sem var rúmar 965,5 milljónir króna.
ÞG verktakar buðu 1.282 milljónir króna, GG-Verk ehf 1.365 milljónir króna og Alverk ehf bauð 1.381 milljón króna.
Sex tilboð í jarðvinnu
Borgarverk ehf átti lægsta tilboðið í jarðvinnu vegna byggingarinnar, tæpar 109 milljónir króna. Eykt ehf bauð 111,9 milljónir, Þjótandi ehf 122,7 milljónir, Mjölnir 132,8 milljónir, Aðalleið ehf 142,6 milljónir og GG-Verk ehf 193 milljónir króna. Kostnaðaráætlun vegna jarðvinnuútboðsins hljóðar upp á 132,7 milljónir króna.
Nú er unnið að yfirferð tilboðanna og mun niðurstaða útboðsins liggja fyrir á næstu dögum.
Samkvæmt útboðsauglýsingunni á fyrsta áfanga jarðvinnunnar að vera lokið þann 15. nóvember næstkomandi þannig að byggingarverktaki geti hafist handa við að slá upp mótum og steypa undirstöður. Reiknað er með að húsið sjálft verði tilbúið til notkunar 1. ágúst 2021.