Ítrekuð skemmdarverk á vélum og bílum

Í gærkvöldi eða nótt voru brotin vinnuljós af vörubíl og hjólagröfu og unnar fleiri skemmdir á lóð Byggingarfélags Árborgar á Selfossi. Um ítrekuð skemmdarverk er að ræða.

Málið var tilkynnt til lögreglu en þetta er ekki í fyrsta skipti sem skemmdarvargar eru þarna á ferðinni. Skemmdarverk hafa áður verið unnið á hjólagröfunni en síðast voru brotnar í henni rúður, auk þess sem rúða var brotin í vörubílnum.

Geymsluport byggingarfélagsins er afgirt og snýr að Vallholti. Á næstu lóð er Bílaþjónusta Péturs til húsa. Þar voru þrír bílar skemmdir á dögunum í skjóli nætur, rúður og speglar brotnir og einn bíll skemmdur að innan. Þá var ein bifreið skemmd við sambýlið á Vallholti 12-14 í síðustu viku og hlaust af töluvert tjón.

Fyrri greinRýming strax vegna jökulhlaups
Næsta greinRýmingu er aflétt – MYNDIR