Ítrekuð skemmdarverk hafa verið unnin á íþróttavallarsvæðinu á Selfossi síðustu vikurnar. Í gærkvöldi eða nótt var girðing á svæðinu eyðilögð.
„Girðing við göngustíg hjá Gesthúsum hefur verið spörkuð niður eða brotin á rúmlega tólf metra kafla í skjóli myrkurs. Það er gott að fólk viti af þessu og vonandi getum við sem samfélag verið vakandi fyrir svona hlutum og komið í veg fyrir þá,“ sagði Þórdís Rakel Hansen, vallarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Fleiri skemmdarverk hafa verið unnin á svæðinu, meðal annars hefur í tvígang verið kveikt í stúkunni við frjálsíþróttavöllinn og í annað skiptið var slökkviliðið kallað út vegna þess.
