Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að ráða Ívar Örn Þórðarson í stöðu slökkviliðsstjóra Skaftárhrepps til eins árs.
Ívar Örn starfaði síðast sem slökkviliðsstjóri hjá byggðasamlagi Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar en áður starfaði hann meðal annars sem slökkviliðs- og neyðarflutningamaður í Slökkviliði Fjarðabyggðar.
Hann er byggingarfræðingur frá Erhvervsakademiet Lillebælt í Danmörku, húsasmiður frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og að auki slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður með vinnuvéla- og meirapróf.
Alls bárust fimm umsóknir um starfið í upphafi en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Aðrir umsækjendur voru Björn Helgi Snorrason og Bjarki V. Guðnason fráfarandi slökkviliðsstjóri.
Fleiri starfsmannamál voru tekin fyrir á fundinum en Guðmundur Björn Eyþórsson var ráðinn í stöðu fjármálastjóra til eins árs og tekur hann við starfinu af Dagnýju Kapítólu Gjöveraa Sigurðardóttur.