Ársreikningur Rangárþings ytra fyrir árið 2016 var tekinn til seinni umræðu í sveitarstjórn Rangárþings ytra í gær og samþykktur samhljóða. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um rúmar 187 milljónir króna sem er verulega betra en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Ársreikningurinn hefur að geyma ársreikninga fyrir þær rekstrareiningar sem falla undir A hluta starfsemi sveitarfélagsins og samantekinn ársreikning fyrir alla starfsemi þess það er A og B hluta.
Í A hluta er öll starfsemi sem að hluta, eða að öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, en auk aðalsjóðs er um að ræða eignasjóð og þjónustumiðstöð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyritækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B hluta eru leiguíbúðir, félagslegar íbúðir, fráveita, vatnsveita, Húsakynni bs., Rangárljós og Suðurlandsvegur 1-3 hf.
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu námu rúmum 1,6 milljarði króna og var rekstrarniðurstaða jákvæð um rúmar 187 milljónir. Eigið fé í árslok 2016 var tæplega 1,4 milljarðar króna.
Sveitarstjórn samþykkti ársreikninginn samhljóða og beindi þökkum til starfsfólks sveitarfélagsins fyrir góða vinnu við rekstur innan ramma fjárhagsáætlunar sem skilar sér í bættri afkomu.